Höfðatorg
2001-2023

Miðborgin stækkar

Byggt fyrir
Höfðatorg og Eykt
Hönnun
PK arkitektar / Pálmar Kristmundsson og Fernando Mendonça
Mörkun og ráðgjöf
Léon Wohlhage Wernik Architekten, Berlín og MetaDesign, Berlín.
Byggt af
Eykt ehf.

Höfðatorg í Reykjavík er stærsta þróunarverkefni Eyktar til þessa. Um 85.000 m² í sex byggingum mynda glæsilega umgjörð um fjölbreytta starfsemi á besta stað í bænum. Uppbygging á reitnum hefur staðið allt frá fyrstu árum aldarinnar og fyrsta byggingin, Borgartún 8-16 var tekin í notkun árið 2007. Í kjölfarið hefur risið glæsileg byggð umhverfis torgið: hæsta skrifstofubygging Reykjavíkur, stærsta hótel landsins og ein athyglisverðasta íbúðabygging borgarinnar. Undir öllu svæðinu er bílageymsla fyrir yfir 1.300 bíla.

Fyrsta byggingin sem reis á Höfðatorgi er Borgartún 8-16, sem hýsir meginhluta skrifstofustarfsemi Reykjavíkurborgar, auk matsölustaðar og kaffihúss. Byggingin er um 14.000 m² á sjö hæðum og rúmar yfir 700 starfsmenn borgarinnar, fjölbreytt rými fyrir móttökur og fundi, auk mötuneytis starfsfólks á þakhæð. Á jarðhæð eru þjónustuver borgarinnar, vinsælt kaffihús og fleira.

Nýjasta fullbúna byggingin á Höfðatorgi er glæsileg íbúðabygging við Bríetartún 9-11. Tveir turnar, sjö og tólf hæðir með 94 glæsilegum íbúðum gera Höfðatorg að mögnuðum stað að búa á. Verslunar- og þjónusturými eru á jarðhæð og í kjallara eru geymslur og sameiginleg rými, þ.m.t. hjóla- og vagnageymsla, tæknirými, lagerrými fyrir verslun og þjónustu og 17 lokuð einkabílskýli. Í húsinu eru tvö stiga- og lyftuhús með tveimur lyftum í hvoru lyftuhúsi, þar af ein bruna- og öryggislyfta. Byggingarnar tengjast öðrum byggingum á Höfðatorgi um bílakjallara.

Fosshótel Reykjavík er stærsta hótel landsins með 320 herbergi og stórkostlegu útsýni til allra átta. Á efstu hæð eru sjö svítur og þrír fyrsta flokks fundarsalir eru á 2. hæð. Á hótelinu er einnig fyrsta flokks veitingastaður sem tekur rúmlega 200 manns í sæti, bjórgarður og líkamsræktarstöð.

Þessi síða notar vafrakökur.