Back

Stór steypudagur við Hringbraut

Steypuvinnu við meðferðarkjarna nýja Landspítalans lauk í gær þegar síðustu átta rúmmetrarnir runnu ljúflega á sinn stað. Þeir lögðust við þá 56.920 rúmmetra af steinsteypu sem farið hafa í meðferðarkjarnann frá því uppsteypa hófst í febrúar 2021. Þrátt fyrir veruleg og óvenjuleg ytri áhrif á borð við heimsfaraldur og stríð í Úkraínu hefur þetta umfangsmikla verkefni gengið mjög vel og er þessum stóráfanga nú lokið innan tíma- og kostnaðarramma.

Uppsteypa bílastæðahúss (fjær) og rannsóknahúss (nær) er í fullum gangi en meðferðakjarninn er fullsteyptur.

Meðferðarkjarninn er hjarta nýbygginga Landspítalans við Hringbraut og langstærsta byggingin á svæðinu. Hún er 6 hæðir ofanjarðar og 2 neðanjarðar, um 70.000 fermetrar að flatarmáli og meðal allra stærstu steinsteyptu bygginga landsins. Kjarninn er í raun heilt sjúkrahús, með skurðstofum og legudeildum, rannsóknum, bráðamóttöku og endurhæfingu, en hann mun tengjast fleiri byggingum Landspítalans bæði ofan- og neðanjarðar, svo sem barnaspítala og kvennadeild í eldri byggingum og nýju rannsóknahúsi og bílageymsluhúsi.

Uppsteypu meðferðarkjarnans er þá lokið og byggingin þegar komin á næsta byggingarstig en steypuvinna heldur áfram á fullri ferð. Þúsund rúmmetrar runnu í rannsóknahúsið í dag og á morgun fara 330 til viðbótar í bílastæða- og tæknihúsið, en þessar byggingar rísa við Hringbrautina sjálfa austan við hin nýju Fífilsgötu. Bílastæðahúsið mun rúma 500 bíla og 200 reiðhjól, en rannsóknahúsið sameina nánast alla rannsóknastarfsemi spítalans undir einu þaki.

Þessi síða notar vafrakökur.